RANNVEIG ÁSGEIRSDÓTTIR - MINNSTA KAFFIHÚS Á ÍSLANDI
Smáframleiðandinn „Minnsta kaffihús á Íslandi“ hefur sitt annað ár í framleiðslu á piparkökuhúsum sem hægt er að hengja á bolla- eða glasbrún.
Rannveig Ásgeirsdóttir, sem stendur á bak við framleiðsluna, segir hugmyndina hafa kviknað við útskrift sonar síns fyrir nokkrum árum, en þá var boðið upp á þessi pínulitlu hús með kaffinu og þau þurftu að vera nógu smá til að passa á mokkabolla.
Hún bjó því til örlítið pappamót í þessum tilgangi og skar kökurnar út með skurðhníf. Þessi aðferð er enn notuð svo það er mikið af tíma, þolinmæði og ást sem fer í örsmáu piparkökuhúsin, enda teljast þau til matarhandverks.
Árið 2019 fékk Minnsta kaffihús á Íslandi byr undir báða vængi með boði á Matarmarkaðinn í Hörpu svo þá var ekkert annað í stöðunni en að útvega leyfi til framleiðslu og hefjast handa. Þau voru ófá veisluborðin sem státuðu af þessum húsum í fyrra og meira. Nú eru húsin til sölu í nokkrum búðum á Íslandi, þ.á m. hjá Gott & Blessað í takmörkuðu upplagi.