Sláturhús Vesturlands - nýr samstarfsaðili

Sláturhús Vesturlands - nýr samstarfsaðili

Feb 24, '21

Sláturhús Vesturlands er lífrænt vottað sláturhús í Borgarnesi. Sláturhúsið framleiðir gæðavörur sem viðskiptavinir Gott og blessað geta nú farið að njóta góðs af.   

Sláturhúsið er í eigu Gúnda GK ehf, Góðs bita ehf og Glitstaða ehf.  Að þessum félögum standa nokkrir bændur í Borgarfirði.  Sláturhúsið er fyrst og fremst svokallað þjónustusláturhús, en sláturhúsið er einnig farið að vinna fyrir samstarfsaðila í vaxandi mæli.  Sláturhúsið fékk lífræna vottun í fyrra og segir Anna Dröfn Sigurjónsdóttir, gæðastjóri félagsins, að það hafi gengið vel að uppfylla kröfurnar sem gerðar eru til lífrænnar vottunar og að vottunin skapi nýja möguleika fyrir félagið.  Nú geti sláturhúsið t.d. unnið með aðilum eins og  Biobú en aðstandendur þess félags hafa verið brautryðjendur í lífrænni ræktun hér á landi.  Anna Dröfn segir, að stefna bænda með lífrænt vottaða ræktun, samræmist vel því sem félagið er að gera að öðru leiti, en í lífrænni ræktun er m.a. lögð áhersla á góða meðferð lands og dýra, stuttar flutningaleiðir og hringrás næringarefna. Gott og blessað fagnar samstarfinu við Sláturhúsið og vonar að fljótlega verði hægt að fara bjóða viðskiptavinum lífrænt vottaðar kjötvörur.

Anna Dröfn segist átta sig á því að fjöldi fólks velji alltaf það ódýrasta og að hún geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við það en að markhópur félagsins sé hins vegar vaxandi fjöldi fólks sem setji gæði og hollustu í fyrsta sæti. Gott og blessað getur tekið undir það.

(Ljósm. með frétt var tekin í tilefni af lífrænni vottun hússins - Bændablaðið: Frá vinstri Guðjón Kristjánsson eigandi og sláturhússtjóri, Helgi Rafn Gunnarsson frkvstj. hjá Biobú og Anna Dröfn Sigurjónsdóttir).